Verk

Hvíld | 1915-1935

Verkið Hvíld er mótað eins og risavaxið höfuð af ungum manni. Hálft andlitið er hulið hjúp sextrendra forma eða stuðla, en hinn helmingur þess er sýnilegur sem og hálsinn. Aftar eru höfuð og háls hulin ferstrendum stuðlum sem sumir ganga skáhallt út eins og geislar. Undir hökunni stendur smávaxinn karlmaður, klæddur kirtli og styður sig við stóran hamar með báðum höndum, en við aðra hlið hans er stór hörpuskel. Klæðnaður og verkfæri mannsins sem og staða hans og heiti verksins gefa til kynna að hann eigi að vera myndhöggvari sem tekið hefur sér hvíld frá vinnu.

Í safninu er til lítil frumgerð í leir sem ætla má að séu drög að stóru gifsmyndinni. Bergformin sem hylja helming andlitsins eru ekki fullmótuð og beint undir hökunni er maður, þó ekki myndhöggvari heldur sitjandi álútur maður með hönd undir kinn. Leiðir staða hans hugann að hinni alþekktu höggmynd Hugsuðurinn eftir franska myndhöggvarann Auguste Rodin og er leirmyndin til vitnis um þreifingar Einars við mótun verksins Hvíld.

Stóru gifsmyndina má túlka á þá leið að myndhöggvarinn/listamaðurinn skapi verk sem er stærra en hann sjálfur og breyti hrjúfu efni náttúrunnar í sína mannsmynd. Með hliðsjón af kynnum Einars af guðspekikenningum um andlega þróun mannsins og endurholdgun hefur verkið hins vegar verið túlkað út frá skrifum breska guðspekingsins Annie Besant sem Einar hafði kynnt sér vel. Í einu rita Besant, sem til er í bókasafni Einars, segir að guð sé innra með hverjum og einum og bíði þess að birtast. Því ferli lýsir Besant með því að vísa til verklags myndhöggvarans er hún segir, að til þess að hin guðlega höggmynd rísi úr hráu grjóti mannlífsins verði hver og einn að höggva burt allt, sem hylur guð augum manna, með meitli hugans og hamri viljans. Bent hefur verið á að samlíking Besant við starf myndhöggvarans eigi sér rætur eða hliðstæðu í ljóðum ítalska myndhöggvarans Michelangelos um að myndhöggvarinn höggvi steininn til að afhjúpa höggmyndina sem þar er inni fyrir og svarar til hugmyndar listamannsins að baki verki sínu. Hlutverk listamannsins sé því að losa höggmyndina úr steininum til að leiða hugmyndina í ljós. Öfugt við Michelangelo hjó Einar ekki verk sitt í stein heldur mótaði í leir og bætti því við efni í stað þess að fjarlægja það. Á hinn bóginn eru augljós hugmyndaleg tengsl milli þessa verks hans og fyrrnefndra skrifa.

Til baka