Myndefni verksins má rekja til þjóðsögunnar Nátttröllið, um stúlkuna sem er ein heima á jólanótt til að gæta bæjarins á meðan heimilisfólkið hefur farið í kirkju og verður vör trölls fyrir utan gluggann sem reynir að lokka hana til sín. Kveðast þau á alla nóttina uns dagur rís og tröllið gáir ekki að sér og verður að steini. Sagan er því ummyndunarsaga og í verkinu hefur Einar staldrað við í frásögninni þegar öflin tvö, sól og myrkur, tákn lífs og dauða, mætast og umbreyting tröllsins á sér stað. Í verkinu gnæfir risinn yfir öllu, steytir hnefa, því tak hans á stúlkunni hefur losnað og hún teygir sig í átt til sólarinnar, lífsbjargarinnar. Hinn líkamlegi kraftur eða efnisheimurinn má sín einskis andspænis sólarljósinu sem er andstæða efnis og myrkurs. Í þessu verki vinnur Einar því úr þjóðsögunni á mun djarfari og táknrænni hátt en í verkinu Útlagar sem er natúraliskt, tilfinningaþrungið og frásagnarkennt. Verkið Dögun bauð upp á ýmiss konar túlkun sem m.a. tengdist umræðu samtímans um frumleika í listsköpun. Athyglisvert er að í fyrri útgáfu verksins, sem Einar sýndi á sýningu De frie Billedhuggere í Kaupmannahöfn árið 1907 hefur hann látið risann halda stúlkunni í greip sinni, en í lokaútgáfunni, sem er í safni hans, hefur stúlkan losað sig úr greip risans sem skerpir merkingu verksins með hliðsjón af umræðu samtímans um frelsi í listsköpun.