Finna má bókina Saga listasafna á Íslandi í heild sinni á opinvisindi.is (https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/1553)
Hinn 23. júní árið 1923 urðu tímamót í íslenskri myndlist. Þann dag lukustupp dyrnar að safnbyggingu Einars Jónssonar myndhöggvara efst á Skólavörðuhæð. Var það fyrsta listasafnið sem opnað var almenningi í eigin húsnæði hér á landi. Aðdragandann að stofnun listasafns yfir verk Einars má rekja til ársins 1909 þegar hann í bréfi til Alþingis frá Kaupmannahöfn snemma árs 1909 bauð Íslandi verk sín, um 30 að tölu, að gjöf að því tilskildu að þau yrðu flutt frá Kaupmannahöfn til Íslands á kostnað landsins. Í bréfinu sagðist Einar kjósa helst að hafa myndir sínar „heima á Fróni“ og hafa þá trú „að þessi litli vísir til listasafns aukist af íslenskri list smátt og smátt og að þess verði ekki langt að bíða að Ísland eigi sér listasafn, er verði því til gagns og sóma.“ Einar hafði þá búið í Kaupmannahöfn frá árinu 1893, þegar hann hélt þangað til náms í myndlist, og hafði unnið að list sinni að námi loknu. Hann hneigðíst snemma að symbólisma og hafði sýnt verk sín á samsýningum róttækra listamanna þar í borg.Boð Einars er til vitnis um að hann hefur þá haft hug á að setjast að Íslandi, því sama ár leitaði hann eftir því við bæjaryfirvöld í Reykjavík að fá úthlutað ókeypis lóð undir hús fyrir sig ásamt styrk úr bæjarsjóði til byggingarinnar. Í því sambandi má geta þess að til eru uppdrættir að húsi frá hans hendi frá árinu 1909. Á þeim má sjá að að hann hefur ekki séð húsið aðeins fyrir sig heldur gert ráð fyrir þremur sölum og merkt einn sjálfum sér, annan Ásgrími Jónssyni listmálara og þann þriðja Listasafni Íslands. Þetta sama ár settist Ásgrímur að hér heima eftir nám í Kaupmannahöfn og dvöl á Ítalíu. Hann hafði þó komið reglulega til Íslands til að mála og haldið sýningar á verkum sínum. Verk hans voru því þekkt meðal almennings hér á landi. Öðru máli gegndi um verk Einars. Þau höfðu fáir séð nema ef til vill á ljósmynd, ef frá eru talin verkin Útlagar frá 1901, sem Ditlev Thomsen kaupmaður hafði keypt og gefið íslensku þjóðinni og komið var fyrir í anddyri Alþingishússins, og styttan af Jónasi Hallgrímssyni sem Einar lauk við árið 1907 og stóð á blettinum á mótum Lækjargötu og Amtmannsstígs í Reykjavík.
Það dróst að Einar fengi svar við fyrrgreindu boði um gjöf verka sinna. Um haustið 1909 fór hann til Berlínar og var þar um kyrrt fram á sumar árið eftir. Eftir dvölina í Berlín var hann orðinn fráhverfur því að setjast að á Íslandi að sinni og fól umbjóðendum sínum að fara fram á við bæjarstjórn Reykjavíkur að afgreiðslu erindis síns um ókeypis lóð undir hús yfir verk sín yrði frestað. Hann komst þó ekki hjá Íslandsferð, því snemma árs 1911 var hann kallaður til landsins til skrafs og ráðagerða um minnisvarða Jóns Sigurðssonar í tilefnis aldarafmælis Jóns á því ári. Úr varð að honum var falið verkið sem hann lauk um vorið og var bronsstyttan afhjúpuð á blettinum framan við stjórnarráðsbygginguna þá um haustið. Einar teiknað jafnframt stöpulinn undir styttuna, þann sem enn stendur á stjórnarráðsblettinum, og miðaði hæð hans við hæð styttunnar. Að auki mótaði hann lágmyndina „Brautryðjandinn“ sem hann gaf til varðans og felldi skammhliðar hennar að hallandi hliðum stöpulsins. Á þann hátt mynduðu stallur, stytta og lágmynd eina heild sem var rofin við flutning styttunnar og lágmyndarinnar á mun hærri stöpul, sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað, á Austurvelli tuttugu árum síðar.
Einar hélt aftur til Kaupmannahafnar sumarið 1911. Íslandsferðin virðist hins vegar hafa vakið með honum löngun til að geta unnið að list sinni hér á landi. Í nóvember sama ár ritaði hann bæjarstjórn Reykjavíkur bréf og fór fram á að hún seldi sér byggingarlóð undir vinnustofu á 3000 ferálna svæði fyrir austan Skólavörðuna, en norðanvert við Skólavörðustíginn. Staðarvalið á gróðursnauðri hæð utan við byggð er til vitnis um framsýni Einars. Á lauslegum óársettum uppdrætti sem mun hafa fylgt bréfinu hefur Skólavörðustígurinn verið sveigður fram hjá skólavörðunni og framlengdur í beinni línu yfir holtið og væntanlegri byggingu fundinn staður norðan götunnar efst á hæðinni. Á uppdrættinum er afmörkuð 3000 ferálna lóð umhverfis grunmynd að byggingu sem skiptist í framhús með inngangi á miðri framhlið og útskotum við horn og tveim álmum að baki.
Óvíst er hvort Einar fékk svar við umleitan sinni 1911, en árið 1914 endurtók hann boð sitt til Alþingis um gjöf verka sinna til þjóðarinnar og fékk þá jákvætt svar. Um haustið sama ár kom hann til Íslands ásamt Önnu Jörgensen, unnustu sinni og síðar eiginkonu, og hófst handa við undirbúning safnbyggingarinnar. Í fyrstu var honum boðin lóðin sem Þjóðleikhúsið stendur á og var í eigu landssjóðs, en afþakkaði boðið þar sem hann taldi að þrengt yrði að safnbyggingunni á þeim stað. Sem fyrr sá hann Skólavörðuhæðina sem ákjósanlegan stað fyrir safnið og fól í fyrstu Guðjóni Samúelssyni að gera uppdrætti að safnbygginu, en Guðjón hafði þá gert hlé námi sínu í byggingarlist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og starfaði sem arkitekt í Reykjavík. Gerði hann teikningar að safnbyggingu sem uppdrættir af svæðinu sýna að hann hefur séð fyrir sér á svipuðum slóðum og safnbygging hafði verið staðsett á uppdráttunum árið 1911. Uppdrættir Guðjóns sýna einnar hæðar hús með inngangi á miðri framhlið og er miðhlutinn eilítið framdreginn og aðeins hærri en meginhluti hússins. Sex gluggar, þrír hvoru megin miðhluta, eru á framhlið og er veggflötur þeirra aðeins inndreginn. Á uppdráttum Guðjóns má sjá vissan skyldleika við svonefnda Secessionbyggingu austuríska arkitektsins Josephs Maria Olbrich sem reist var í Vínarborg árið 1898 og víst má telja að Einar hafi séð og jafnvel sótt þar sýningar. Öðru máli gegndi um Guðjón sem á hinn bóginn hafði kynnt sér verk framsækinna arkitekta þessa tíma í þýskum tímaritum. Einari þótti fyrirhugað hús hins vegar of lítið fyrir safn og vinnustofu og ekkert framhald varð á samvinnu þeirra Guðjóns.
Það var hins vegar Einar Erlendsson, aðstoðarmaður Rögnvalds Ólafssonar byggingarráðunautar heimastjórnarinnar, sem vann að gerð uppdráttanna að safnbyggingunni í samvinnu við Einar, enda stóð til að safnbyggingin yrði reist fyrir opinbert fé. Sem fyrr var húsinu fyrirhugaður staður á Skólavörðuhæð og voru uppdrættirnir samþykktir í byggingarnefnd Reykjavíkur í júlí sama ár. Í samþykkt nefndarinnar segir að húsið skuli standa „fyrir austan framlengingu Frakkastígs, á lóð sem bæjarstjórnin hefur samþykkt að láta af hendi undir húsið.“ Í endurminningum sínum segist Einar hafa kosið að staða hússins fylgdi höfuðáttum, en engu fengið að ráða þar um. Hann hafði líka viljað að húsið yrði reist sunnan til á holtinu en ekki fengið og valdi síðar þann stað sem húsið stendur á. Til byggingarinnar höfðu verið veittar tíu þúsund krónur úr landssjóði sem hrukku hvergi til og var efnt til söfnunar meðal fjársterkra einstklinga og annarra aðila og söfnuðust 20 þúsund krónur sem gerði mönnum kleift að hefja verkið.
Húsið sem þeir nafnar teiknuðu var mun stærra en húsið á uppdráttum Guðjóns Samúelssonar, en einnig byggt á samhverfri grunnmynd og með framdregnum inngangi á miðri framhlið eins og það. Sömuleiðis einkennir bygginguna ákveðinn strangleiki með lóðréttum línum há- og lágflata út frá gluggum. Í safnbyggingunni sem er jarðhæð, aðalhæð og turnhæð setur þetta samspil há- og lágflata mjög sterkan svip á götuhlið hússins. Á garðhlið þess er jarðhæðin eilítið framdregin og lóðréttar háfletir milli glugga, en á hæðinni fyrir ofan er heill veggur með upphleyptum hringbogum efst. Fyrir miðju er útbygging með inngangi á jarðhæð og upp af henni stigasúla sem ber uppi hluta turnhússins þaðan sem gengið er út á svalir beggja vegna. Á móti samspili lóðréttra há- og lágflata sem einkenna framhlið hússins setja stórir fletir og hringlaga form svip sinn á garðhlið þess.
Bygging hússins hófst haustið 1916 og var hornsteinn lagður að því 28. október sama ár. Sumarið 1917 var Einari boðið til Bandaríkjanna og falið að móta stóra standmynd af Þorfinni karlsefni og dvaldist hann þar ásamt eiginkonu sinni vel á annað ár. Þetta var á árum heimsstyjaldarinnar fyrri og tafir urðu á byggingunni vegna efnisskorts. Þau hjón komu ekki aftur til Íslands fyrr en vorið 1920 eftir vetrardvöl í Danmörku þar sem Einar undirbjó flutning verka sinna til Íslands. Bygginu hússins var þá lokið, en það hafði staðið óinnréttað og opið þeim sem þar vildu leita skjóls. Hafist var handa við að innrétta húsið og koma verkum fyrir í sýningarsal á aðalhæð þess, en á jarðhæð var vinnustofa listanmannsins og að hluta íbúð þeirra hjóna og í turni setustofa og einkaherbergi hvoru megin gangs. Skipulag sýningarsalarins var í höndum listamannsins og hönnun stöpla og skápa kallaðist á við lóðréttar línur sem setja svip á framhlið hússins. Sama gilti um innréttingar annars staðar í húsinu. Upphafleg niðurröðun verka í aðalsýningarsal var markviss sjónrænt séð svo að úr varð sterk heild. Ljóst er að þar var þrívíddarmaður að verki.