Í upphafi 20. aldar urðu þáttaskil í íslenskri myndlist. Fram á sjónarsviðið komu ungir myndlistarmenn sem hófu listferil sinn með sýningum á verkum sínum í Reykjavík eða þátttöku í listsýningum erlendis. Listamennirnir nutu góðs af þeirri menningarvakningu sem varð hér á landi á síðari hluta 19. aldar með vaxandi þéttbýlismyndun samfara aukinni sjálfstjórn landsins.
Einar Jónsson myndhöggvari var einn þessara listamanna sem í byrjun nýrrar aldar lögðu grunn að nútímamyndlist hér á landi og sá fyrsti sem gerði höggmyndalist að aðalstarfi.
Einar var fæddur að Galtafelli í Hrunamannahreppi í Árnessýslu 11. maí árið 1874 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru bændahjónin Gróa Einarsdóttir og Jón Bjarnason. Ári eftir að Einar fermdist kom hann fyrst til Reykjavíkur og í þeirri ferð gafst honum kostur á að sjá málverk í eigu Listasafns Íslands sem ungur lögfræðingur, Björn Bjarnarson að nafni, hafði stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn og voru verk safnsins til sýnis í Alþingishúsinu. Haustið 1891 fór Einar til Reykjavíkur til að afla sér menntunar og snemma kom í ljós að hugur hans hneigðist til listmenntunar.
Árið 1893 hélt Einar til Kaupmannahafnar með það fyrir augum að læra höggmyndalist. Í fyrstu lærði hann útskurð hjá tréskurðarmeistara, en hóf síðar nám í höggmyndalist hjá norska myndhöggvaranum Stephan Sinding sem hann var hjá næstu þrjú ár. Hjá Sinding lærði Einar að höggva í marmara og vann þar verkið Drengur á bæn sem hann sendi með umsókn sinni til Alþingis um styrk til frekara náms sem hann fékk og gerði honum kleift að hefja nám við Konunglega listaháskólann árið 1896. Þar stundaði hann nám til ársins 1899 og voru prófessorar hans myndhöggvararnir Theobald Stein og Vilhelm Bissen.
Einar var farinn að vinna að drögum að nokkrum verkum á námsárum sínum. Meðal þeirra var verkið Útlagar sem hann lauk við árið 1901 og sýndi á Vorsýningu Charlottenborgar í Kaupmannahöfn sama ár. Markaði það upphaf listferils hans og þar með íslenskrar nútímahöggmyndalistar. Myndefnið sótti hann í útilegumannasögur úr flokki íslenskra þjóðsagna sem fell í góðan jarðveg hjá Íslendingum sem það sáu. Verkið ber einkenni natúralismans en er jafnframt tilfinningaþrungið. Val Einars á myndefni úr þjóðsagnaarfi eigin þjóðar átti sér hliðstæður í norrænni myndlist samtímans þar sem sagnaminni, hvort heldur úr þjóðsögum eða goðafræði, voru algeng í verkum listamanna sem laust fyrir aldamótin 1900 höfðu horfið frá raunsæisstefnu og tileinkað sér tjáningarform symbólismans.
Á 18. og fram eftir 19. öld höfðu norrænir listamenn farið til Rómar til lengri eða skemmri dvalar. Þekktastur þeirra er án efa Bertel Thorvaldsen sem bjó þar og starfaði í 40 ár. Eftir miðja 19. öld var Róm ekki lengur sá staður sem erlendir listamenn flykktust til heldur París. Róm varð þó fyrir valinu þegar Einar hélt til lengri dvalar suður á meginland Evrópu snemma árs 1902. Til fararinnar hafði hann hlotið styrk frá Alþingi og var hann í Róm í rúmlega eitt ár. Hann hafði vinnustofu í miðri Rómaborg og meðal verka sem hann gerði drög að var lítil stytta af Ingólfi Arnarsyni sem hann sá fyrir sér á Arnarhóli, en einnig verkið Saga, í minningu Snorra Sturlusonar, sem hann sá einnig fyrir sér á almannafæri. Í Róm vann hann auk þess verkin Maður og kona, stórt verk sem hann sýndi í Künstlerhaus í Vínarborg árið 1903 og Vökumaðurinn, þar sem efnið var sótt í íslenska þjóðsögu.
Árið 1891, tveim árum áður en Einar kom til Kaupmannhafnar, höfðu ungir róttækir listamenn haldið þar sýningu undir heitinu Den fríe Udstilling til höfuðs opinberu sýningunum á Charlottenborg. Um það leyti var symbólisminn að ryðja sér til rúms í norrænni myndlist, en tilurð þeirrar stefnu má meðal annars rekja til viðbragða við efnishyggju sem og raunsæisstefnunni í listum og varð Den frie Udstilling vettvangur listamanna sem ruddu symbólismanum braut í danskri myndlist. Fyrirlestrar og skrif danska rithöfundarins Georgs Brandes um þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche höfðu líka áhrif á unga listamenn. Brandes, sem áður hafði verið helsti boðberi raunsæisstefnunnar í Danmörku, beindi nú sjónum að skrifum Nietzsches um dauða guðs og sköpunarkraft mannsins og lagði áherslu á hinn sterka einstakling sem boðbera menningarlegrar nýsköpunar til höfuðs ört vaxandi efnishyggju. Er kom að listum tengdist sá boðskapur hugmyndum um snillinginn og frelsi í listsköpun og þar með kröfunni um frumleika listarinnar.
Hinar róttæku hugmyndir um frumleika og frelsi í listsköpun létu Einar ekki ósnortinn. Því til vitnis er þátttaka hans í sýningum myndhöggvarahópsins De frie Billedhuggere sem haldnar voru í byggingu Den frie Udstilling. Að hópnum stóðu danskir myndhöggvarar sem voru mótaðir af uppgjörinu við hina klassísku hefð í togstreitunni milli raunsæisstefnu og symbólisma í lok 19. aldar. Margir þeirra höfðu dvalist í París og kynnst þar symbólismanum. Í verkum þeirra mátti greina áhrif frá tveim afar ólíkum myndhöggvurum 19. aldar, annars vegar franska myndhöggvaranum Auguste Rodin (1840-1917) sem í verkum sínum leitaðist við að láta líkamshluta vaxa út úr efnismassanum og hins vegar þýska myndhöggvaranum Adolf von Hildebrand (1847-1921) sem lagði áherslu á stranga uppbyggingu og massíf form sem og samband höggmyndalistar og byggingarlistar. Í verkum Einars frá þessum árum má greina skyldleika við verk beggja þessara myndhöggvara. Einar gerðist félagi í De frie Billedhuggere og tók þátt í sýningum hans á árunum 1905-1908. Á fyrstu sýningu hópsins árið 1905 sýndi hann verkið Antiken, sem sýnir teinrétta konu í klassískum búningi sem heldur á höfði Medúsu, en með því vildi hann tjá hugmyndir sínar um lamandi áhrif fornlistar á list síðari tíma. Meðal verka sem hans á sýningum hópsins voru Höndin í minningu færeyska skáldsins og frelsishetjunnar Pouls Nolsöe, Alda aldanna, Natura Mater og Dögun.
Árið 1909 sagði Einar sig úr hópnum De frie Billedhuggere. Sama árið bauð hann íslensku þjóðinni öll verk sín að gjöf með því skilyrði að landssjóður kostaði flutning þeirra til landsins og annaðist varðveislu þeirra. Erindinu virðist ekki hafa verið sinnt, en til er uppdráttur að safnbyggingu sem sýnir einnar hæðar byggingu með háu fordyri á miðri framhlið. Uppdrátturinn er ekki höfundarmerktur, en á hann eru ritaðar ýmsar skýringar með rithönd Einars. Á uppdrættinum hefur Einar merkt sjálfum sér aðra álmu hússins og Ásgrími Jónssyni listmálara hina, en Listasafni Íslands rýmið þar á milli.
Einar tók hlutverk sitt sem listamaður alvarlega, en sætti oft óvæginni gagnrýni danskra gagnrýnenda og má sjá hugmynd hans um að gefa verk sín íslensku þjóðinni í því ljósi. Því boði var þó ekki svarað og kann þetta hvorttveggja að hafa verið ástæða þess að hann fór til Berlínar haustið 1909 og var þar fram á vor næsta ár. Í Berlín skrifaði hann hugleiðingar sínar um listsköpun þar sem honum verður tíðrætt um meðfæddan hæfileika og hugmyndaflug listamannsins sem leiðandi afl í listsköpun. Hann líkir nýsköpun í listum við upphaf lífs á jörðinni og segir það vera meðfæddan vilja mannanna að skapa abstraksjón frammi fyrir nýjum hugsunum sem þeir verði fyrst um sinn að færa í sína eigin mynd í list sinni svo að það verði fallegt verk, þótt þeir geti ekki útskýrt það. Hins vegar verði það verkefni framtíðarinnar að skýra það út að því tilskildu að það hafi lífsneista til að lifa áfram. Á öðrum stað segir Einar: Það er hlutverk listarinnar að skapa nýja hugsun, sem sé tengill milli okkar og alheimsins. Ólíkt vísindunum byggist listin ekki á staðreyndum heldur sprettur hún úr ímyndunarafli listamannsins eins og Minerva úr höfði Seifs.
Skrif Einars um hlutverk listarinnar að skapa nýja hugsun sem tengi manninn við alheiminn eru til vitnis um hugarfarsbreytingu hjá honum: frá jarðbundinni einstaklingshyggju til einhvers altækara og andlegra. Sjálfur segir hann frá kynnum sínum af ritum sænska 18. aldar vísindamannsins og dulspekingsins Emanuels Swedenborg um æðri heima og samsvörun þeirra við jarðlífið sem og af kenningum guðspekinnar um endurholdgun mannsins, verund hans og andlega þróun. Telur hann þær kenningar hafa opnað sér nýja leið í listsköpun. Líkt og í tilviki annarra er hlutverk listamannsins – það að skapa andleg verðmæti - háð andlegum þroska hans þar sem markmiðið er að vekja hin andlegu svið innra með manninum til vitundar. Meðal fyrstu verka sem gefa til kynna breyttar áherslur í list Einars er málverkið Engill ljóssins frá 1910-1911 sem hann vann fyrstu drög að í Berlín. Meðal höggmynda hans af guðspekilegum toga eru Deiglan 1913-1914, Þróun 1913-1914, Fæðing Pshyche 1915-1918, Hvíld 1915-1935 og Úr álögum 1916-1927.
Það kom í hlut Einars að móta styttur af mönnum, sem þóttu hafa markað spor í sögu landsins, á fyrstu áratugum 20. aldar og ber að líta á þau verkefni sem vitnisburð um ríkjandi þjóðernismiðaða orðræðu á Íslandi á þeim tíma. Þeir menn sem Einari var falið að móta myndir af voru skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson (1905-1907), Ingólfur Arnarson (1906-1907) fyrsti landnámsmaður Íslands, Kristján IX. (1908) Danakonungur, Jón Sigurðsson (1911) forystumaður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld, Þorfinnur karlsefni (1917-1918), landnámsmaður í Norður-Ameríku og Hannes Hafstein (1931), fyrsti íslenski ráðherrann..
Sumarið 1917 hélt Einar ásamt Önnu eiginkonu sinni til Bandarikjanna. Þangað hafði honum verið boðið að gera tillögu að stórri standmynd af Þorfinni karlsefni sem talinn er hafa numið land í Norður-Ameríku laust eftir árið 1000. Myndinni var ætlaður staður í fyrirhuguðum höggmyndagarði í Fairmont Park í Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum sem helgaður skyldi sögu Ameríku. Tilurð höggmyndagarðsins mátti rekja til þess að auðug kona að nafni Ellen Philippe Samuel, sem þá var nýlátin, hafði stofnað sjóð sem fjármagna skyldi gerð höggmyndagarðs með minnisvörðum um sögu Ameríku. Þónokkru fyrir för Einars og eiginkonu hans hafði hann mótað stóra mynd af Þorfinni og sent vestur um haf til kynningar og um haustið 1917 var honum falið verkefnið. Þeim hjónum var útvegaður gististaður og Einari rúmgóð vinnustofa og lauk hann við endanlega gerð myndarinnar árið 1918. Tveim árum síðar, þann 20. nóvember 1920, var bronsafsteypa af styttunni afhjúpuð í Fairmont Park.
Einar og Anna dvöldust vestan hafs fram til ársins 1919 og bjuggu mestan hluta tímans í Fíladelfíu, en fóru einnig í ferðalög, til Chicago og Minneapolis og fleiri borga og heimsóttu Vestur-Íslendinga í Kanada í tvígang. Haustið 1919 sigldu þau til Kaupmannahafnar þar sem Einars beið undirbúningur flutnings verka sinna til Íslands. Sex ár voru liðin frá því að þau Anna fóru frá Kaupmannahöfn til Íslands og höfðu sum verkin skemmst í flutningum á milli staða á þeim tíma og varð Einar að gera við þau áður en hægt var að pakka þeim fyrir flutninginn til Íslands. Vorið 1920 voru verkin flutt til landsins og var flutningurinn greiddur úr landssjóði. Byggingu safnhússins var nú lokið, en húsið óvarið og óinnréttað. Þau Einar og Anna fluttu þó í húsið við komuna til Íslands vorið 1920. Gert var ráð fyrir íbúðarherbergjum í turni hússins og á jarðhæð þar sem Einar hafði jafnframt vinnustofu sína, en á annarri hæð var sýningarsalur safnsins. Framan af var safnbyggingin eina húsið á Skólavörðuholti þar sem það gnæfði yfir lágreista byggð Reykjavíkur.
Einar tók virkan þátt í listalífi í Kaupmannahöfn á fyrstu starfsárum sínum og sýndi auk þess verk sitt Maður og kona í Vínarborg. Greinar um verk hans birtust í erlendum blöðum, einkum dönskum, en einnig í blöðum í þýsku- og enskumælandi löndum. Á Íslandi áttu menn ekki kost á að sjá mörg verka hans framan af. Þeir sem komu inn í Alþingishúsið hafa þó ekki komist hjá því að mæta verkinu Útlagar sem stóð í anddyri hússins í fyrstu og síðar í anddyri Íslandsbanka á horni Ausutrstrætis og Lækjartorgs. Önnur verk Einars sem almenningur hafði aðgang að voru stytturnar af Jónasi Hallgrímssyni, sem komið var fyrir á blettinum á horni Læjargötu og Amtmannsstíg árið 1907, og Jóni Sigurðssyni forseta sem var afhjúpuð á blettinum framan við Stjórnarráðshúsið árið 1911. Sama ár var haldin Iðnsýning í Reykajvík í tilefni aldarafmælis Jóns Sigurðssonar og þar sýndi Einar 25 verk sem vafalaust hafa verið minni útgáfur af stærri verkum. Mun það hafa verið eina sýningin sem hann tók þátt í hér á landi.
Eftir að Einar settist að hér á landi sýndi hann verk sínu einungis í listasafni sínu, sem var opið almenningi, enda var aðstaða til listsýningahalds hér á landi bágborin framan af. Styttur hans á almannafæri voru auk þess almenningi aðgengilegar. Árið 1924 var bronsafsteypa af styttu Ingólfur Arnarson afhjúpuð á Arnarhóli í Reykjavík og árið 1931 var stytta Hannesar Hafstein afhjúpuð á blettinum framan við Stjórnarráðshúsið. Einari var einnig falið að móta höfuðmyndir af nafngreindu fólki sem og lágmyndir sem margar hverjar eru á almenningsstöðum.
Listasafn Einars Jónssonar var fyrsta listasafnsbyggingin sem reist var hér á landi og markaði bygging þess upphaf byggðar á Skólavörðuholti í Reykjavík. Safnið var eina listasafnið sem opið var almenningi þar til Listasafn Íslands var opnað í safnahúsinu við Suðurgötu í Reykjavík sumarið 1951.
Einar vann að list sinni fram á síðasta aldursár og voru verk hans til sýnis í safni hans. Þar vann hann meðal annars að gerð fjölda höfuðmynda eftir pöntun. Tvö mannskæð slys urðu honum einnig kveikja að verkum sem komið hefur verið fyrir á almannafæri. Fyrra verkið ber heitið Í minningu skiptapa dr. Charcots frá 1936, en kveikjan að því var sjóslys undan vesturströnd Íslands haustið 1936 þegar franska rannsóknarskipið Pourquoi pas? fórst. Bronsafsteypa af verkinu er í Saint-Malo í Bretagne í Frakklandi og önnur á Fáskrúðsfirði. Hitt verkið er Glitfaxi frá 1952, í minningu þeirra sem fórust með flugvélinni Glifaxa árið 1951, en bronsafsteypa af því verki er við Fossvogskirkju í Reykjavik og önnur í höggmyndagarði safnsins.